Nemendur í París

 

Nýlega dvöldu 28 nemendur Kvennaskólans ásamt þremur kennurum í Parísarborg. Ferðin er hluti af svokölluðum Parísaráfanga sem er í boði fyrir frönskunemendur hér við skólann. Í áfanganum fræðast nemendur um heimsborgina París og vinna ýmis verkefni. Menningarferð til Parísar er hápunktur áfangans og dvaldi hópurinn þar að þessu sinni frá 29. september til 3. október og gisti á farfuglaheimili í hjarta borgarinnar, nánar tiltekið í Mýrinni (le Marais) í 4. hverfi. Fyrsta daginn hélt hópurinn í siglingu á ánni Signu og sá strax mörg helstu kennileiti borgarinnar. Á næstu dögum skoðaði hópurinn sum þeirra betur, t.d. Eiffelturninn, Sigurbogann, Louvre safnið og Montmartre hæðina þar sem kirkjan Sacré Coeur trónir á toppnum. Einnig fór hópurinn í langan og fróðlegan göngutúr um Mýrina og latínuhverfið undir leiðsögn Kristínar Jónsdóttur Parísardömu. Það setti aukasvip sinn á ferðina í ár að hópurinn var nýbúinn að fagna peysufatadegi og gerðist það oftar en einu sinni að sum brustu í söng eða dönsuðu vikivaka og skottís, vegfarendum til óvæntrar ánægju. Þessi dýrmætu dagar voru nýttir til hins ítrasta sem sést best á því að nemendur og kennarar gengu yfirleitt 13-20 kílómetra hvern dag (ef marka má snjalltæki hópsins).

Hluti af dagskrá hópsins fólst í því að nemendur fóru saman í smærri hópum í ólíkar áttir og skoðuðu nokkra fyrirfram ákveðna staði. Þar áttu þau að kynna sér staðhætti og viða að sér efni, taka myndir og myndbönd. Þau áttu líka að taka viðtöl á frönsku við fólk á stöðunum svo töluvert reyndi á frönskukunnáttu þeirra. Efnisöflun gekk vel og nemendur sáu og upplifðu ótalmargt nýtt og spennandi sem þau hafa unnið úr eftir heimkomu. Sem dæmi um viðfangsefni má nefna matarmenningu og tísku í París, ýmis söfn og garða. Afraksturinn felst í stuttmyndum eða glærusýningum sem eru ekki bara skilaverkefni heldur einnig minningar þeirra um skemmtilega ferð.

Ferðin gekk mjög vel og Parísarborg skartaði sínu fegursta í ágætu veðri að mestu. Óhætt er að segja að nemendur séu reynslunni ríkari og hafi verið skólanum til sóma.