Eftirminnilegur fótbolti

Lið Kvennaskólans og Team FC Mosi
Lið Kvennaskólans og Team FC Mosi

 

Dagana 8. - 9. nóvember átti Kvennaskólinn fulltrúa á fótboltamótinu Global Goals World Cup sem haldið var samhliða Heimsþingi kvenleiðtoga. Markmið fótboltamótsins var að styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og auka aðgengi stúlkna og kvenna að íþróttaiðkun. Ekki er vanþörf á því tölfræðin segir okkur að aðeins 1% af fjármagni íþrótta í heiminum í dag renni til kvenna.

Lið Kvennaskólans skipuðu þaulreyndar knattspyrnukonur sem allar eru núverandi nemendur við skólann. Þær eru María Lovísa Jónasdóttir, Aldís Guðlaugsdóttir, Bryndís Arna Níelsdóttir, Mist Funadóttir, Elísabet Lilja Ísleifsdóttir, Tinna Sól Þórsdóttir, Dagný Rut Imsland, Ólöf Sigríður Kristinsdóttir og Kattalin Agirreurreta Lara.

Mótið var mjög óhefðbundið og leikreglur og stigagjöf voru endurskilgreind með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Öll fótboltaliðin völdu sér heimsmarkmið til að vinna eftir og lið Kvennaskólans, Equaliteam, valdi sér markmiðið “Jafnrétti kynjanna” sem liðið þurfti að kynna í Hörpu þann 8. nóvember. Ólöf Sigríður sá um kynninguna fyrir hönd liðsins. Hér má finna slóð á vefsíðu leikanna þar sem liðið okkar kynnir sig og markmiðið sitt.

Eliza Reid, forsetafrú, setti dagskrá mótsins í Origo höllinni. Í kjölfarið fór fram heiðursleikur þar sem fulltrúar frá Heimsþingi kvenleiðtoga kepptu við lið kvenna úr ólíkum íslenskum stjórnmálaflokkum. Keppendur komu úr ólíkum áttum. Liðið okkar gerði jafntefli við liðið Kafo frá Saudi-Arabíu í fyrsta leik. Næst unnu þær svo lið KPMG (2-0), þá lið Origo (einnig 2-0) og að lokum unnu þær lið Kvenréttindafélags Íslands með þremur mörkum gegn engu.

Eins og áður sagði voru mótsreglurnar mjög óhefðbundnar og til að komast í undanúrslit var ekki nóg að vinna bara fótboltaleikina. Margt annað spilaði inn í, s.s. verkefni tengd heimsmarkmiðum sem sum liðin höfðu unnið að í marga mánuði. Okkar lið hafði ekki átt kost á því enda fengum við ekki boð á mótið fyrr en nýlega. Vítaspyrnukeppni var þó haldin milli þeirra sem höfðu staðið sig best í fótboltanum og þar töpuðu okkar konur 2-1 gegn fyrrverandi landsliðskonum í fótbolta. Sigurvegarar mótsins voru Leaf A Mark frá Jórdaníu.

Þetta var frábær reynsla, sérstaklega fannst stelpunum gaman að spila á móti liði frá Saudi-Arabíu og kynnast í gegnum þetta verkefni. Það var gaman að fylgjast með undirbúningnum og við erum þeim innilega þakklát fyrir að bregðast við með svo stuttum fyrirvara.