Eftirminnileg útskrift

 

Þrátt fyrir gula viðvörun var fjölmenni í Háskólabíó síðastliðinn föstudag þegar 183 stúdentar brautskráðust frá Kvennaskólanum í Reykjavík. Kolfinna Jóhannesdóttir skólameistari flutti ávarp þar sem hún þakkaði stúdentum fyrir að sýna bæði sjálfstæði og hugrekki sem hafi ýtt undir góðan skólabrag og gott félagsstarf. Hún sagði að áhersla skólans á gagnrýna hugsun og samfélagslega vitund ætti að útskrifa nemendur sem gera samfélagið betra. Metnaður og ábyrgð en ekki síður persónuleg og hlýleg samskipti skipta þar miklu máli.

Ásdís Arnalds aðstoðarskólameistari flutti einnig ávarp og hvatti nemendur til að leggja áherslu á góðmennsku framar öllu öðru í lífinu og vísaði í fallega  sögu Astrid Lindgren um bræðurna Ljónshjarta. Fráfarandi forseti nemendafélagsins, Embla María Möller Atladóttir, flutti ávarp nýstúdents og Ásdís Ingólfsdóttir flutti ávarp fyrir hönd 50 ára útskriftarárgangs skólans. Hún og Svanhildur Agnarsdóttir færðu skólanum gjöf af sama tilefni. Svo skemmtilega vill til að þær hafa báðar starfað við Kvennaskólann í áratugi en ætla á vit nýrra ævintýra í haust.

Tvö tónlistaratriði komu úr útskriftarhópnum. Nýstúdent Karitas Þorsteinsdóttir spilaði á fiðlu Draumalandið eftir Sigfús Einarsson. Meðleikari hennar var Einar Bjartur Egilsson. Nýstúdentarnir og bekkjarsystkinin Salka Firth og Jökull Hjaltason léku verkið Armandos rhumba eftir Chick Corea á fiðlu og píanó.

Rúsínan í pylsuendanum var síðan frábært minningarmyndband sem forsvarsmenn vídeónefnda skólans (Pedróu og Klisjunnar), Auður Dís Kristjánsdóttir og Nikulás Darrason kynntu í athöfninni og frumsýndu við mikinn fögnuð viðstaddra. Hér má finna minningarmyndbandið.

Dúx skólans með ágætiseinkunn 9,82 er Katrín Hekla Magnúsdóttir. Hún hlaut einnig verðlaun fyrir jarðfræði og fyrir framúrskarandi námsárangur í stærðfræði á stúdentsprófi frá Íslenska stærðfræðafélaginu. Þá má geta þess að Katrín Hekla er auk þess í landsliði framhaldsskóla í eðlisfræði og mun fara á Evrópsku ólympíuleikana í eðlisfræði í sumar.

Ingunn Guðnadóttir er semídúx skólans með 9,7 í meðaleinkunn á stúdentsprófi. Hún hlaut einnig verðlaun fyrir góðan árangur í íslensku og verðlaun frá Háskólanum í Reykjavík fyrir framúrskarandi árangur í raungreinum á stúdentsprófi.

María Margrét Gísladóttir hlaut Stúdentspennann sem eru verðlaun fyrir besta lokaverkefni skólaársins. Lokaverkefni Maríu Margrétar fjallar um hvað þurfi til að gera plánetuna Mars lífvænlega fyrir menn. María Margrét hlaut einnig verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í efnafræði en María Margrét sigraði auk þess landskeppnina í efnafræði og mun taka þátt í alþjóðlegum keppnum í sumar.

Ida Karólína Harris hlaut einnig sérstaka viðurkenningu fyrir framúrskarandi lokaverkefni en verkefnið fjallaði um hvernig skilningur á læknisfræðilegum áskorunum kvenna hefur mótað þekkingu á legslímuflakki. Hún hlaut einnig Menntaverðlaun Háskóla Íslands en hún hefur staðið sig afbragðs vel í námi alla skólagönguna og verið mikil fyrirmynd í umhverfismálum bæði innan skólans og utan.

Aðrar viðurkenningar fyrir afburðagóðan námsárangur fengu Kjartan Ásgeirsson, Emilía Björk Höskuldsdóttir, Elín Elmarsdóttir Van Pelt, Þóra Laufey Þórarinsdóttir, Rebekka Kristjánsdóttir, Sigríður María Sigurðardóttir, Margrét Eir Gunnlaugsdóttir og Selma Ingadóttir.

Við óskum öllum nýstúdentunum og aðstandendum þeirra innilega til hamingju með áfangann. 
Smellið endilega á ljósmyndirnar til að sjá þær betur.