Peysufatadagur 3. bekkur

Kæru nemendur í 3. bekk

Loksins, loksins styttist í að við getum haldið peysufatadaginn ykkar hátíðlegan fimmtudaginn 7. apríl. Á þessum degi klæðast nemendur íslenskum þjóðbúningum og syngja og dansa úti um borg og bý. Þetta er ávallt mikill gleðidagur og af mörgum fyrrverandi nemendum skólans talinn einn eftirminnilegasti skóladagurinn þegar þau líta til baka yfir Kvennaskólaárin sín.

Við gerum ráð fyrir að halda kynningarfund og söngæfingu fyrir árganginn ykkar um þremur vikum fyrir daginn og svo nokkrar dans- og söngæfingar í framhaldi af honum (væntanlega haldnar strax eftir skóla). Þetta verður allt nánar auglýst bráðlega en þið getið strax tekið frá tíma fyrir generalprufu miðvikudaginn 6. apríl. Þá mætir Reynir Jónasson með harmonikkuna sína og við syngjum og dönsum af hjartans lyst!

Ef þið eruð ekki búin að því nú þegar er um að gera að huga að klæðnaði dagsins. Löng hefð er fyrir því að nemendur klæðist íslenskum búningi af einhverju tagi og finnið þið á heimasíðunni fróðlegar upplýsingar um algenga búninga. Eins getið þið valið að klæðast á þjóðlegan máta, t.d. í lopapeysu og dökkar buxur. Enginn ætti að láta fataleysi koma í veg fyrir þátttöku á þessum skemmtilega og eftirminnilega degi, ÖLL eru hvött til að vera með.

Mörg ykkar geta eflaust fengið lánaða búninga hjá ættingum eða vinum, þeir leynast á mörgum heimilum, sérstaklega kvenbúningar. Einhverjir kjósa að leigja búning og við vitum af fjórum aðilum sem bjóða upp á þjóðbúningaleigu. Flestir hafa leitað til Þjóðdansafélagsins í gegnum árin enda er úrvalið mest hjá þeim en einnig á Þjóðbúningaleiga Kolfinnu nokkra búninga, sem og Þjóðbúningar og fatagerð Sólveigar. Jafnframt hefur Glímusamband Íslands nokkra karlabúninga til leigu. Nánari upplýsingar um þessar leigur eru hér fyrir neðan.

Bestu kveðjur,
Margrét Helga Hjartardóttir, frönskukennari við Kvennaskólann og umsjónarkona peysufatadagsins

Þjóðdansafélagið
Félagið vill afgreiða allar pantanir í gegnum tölvupóst.
Senda á póst með fyrirspurn og fá tíma í mátun: thjoddans@gmail.com
(sum ykkar voruð í sambandi í sumar/haust en þurfið að ítreka beiðni)

Þjóðbúningaleiga Kolfinnu
Efstasundi 37
s: 553 8955 / 893 8949
kolfinnasig@gmail.com

Glímufélag Íslands
gli@glima.is (taka bara við pöntunum í gegnum þennan póst).

Þjóðbúningar og fatagerð Sólveigar
s: 568 5606, Ásgarði 1