Nemendur á Njáluslóðum

Nemendur á öðru ári fóru á Njáluslóðir fimmtudaginn 25. september síðastliðinn. Ferðinni var heitið austur fyrir fjall þar sem fyrsta stopp var við Rauðuskriður. Fjölmargir nemendur gerðu sér lítið fyrir og valhoppuðu upp á Stóra Dímon. Uppi á fjallinu var stórfenglegt útsýni yfir í Fljótshlíðina og þar rann upp ljós fyrir Njálungum af hverju Gunnar ákvað að halda kyrru fyrir á Íslandi og hlíta ekki dómnum um útlegð. Keyrt var með hópinn sem leið lá inn í Fljótshlíðina sjálfa að Hlíðarenda þar sem Gunnar bjó. Eftir mjög hressandi fjallgöngu og útiveru á Hlíðarenda fengu nemendur sér í svanginn á Sögusetrinu á Hvolsvelli. Síðasti viðkomustaður fyrir heimför var svo Gunnarssteinn þar sem Gunnar og bræður hans Kolskeggur og Hjörtur háðu bardaga við erkióvini þeirra, þá Starkað undir Þríhyrningi og Egil úr Sandgili. Kennarar brugðu sér í líki bræðranna og 30 nemendur léku 30 manna óvinaher. Það er skemmst frá því að segja að bæði kennarar og nemendur lifðu ferðina af og komu til Reykjavíkur sáttir og sælir með góðan dag.