Peysufatadagurinn og stórafmæli harmonikkuleikara


Þetta skólaár erum við svo heppin að fá að upplifa tvo peysufatadaga í Kvennaskólanum með nemendum okkar. Síðastliðinn föstudag voru það nemendur á þriðja ári sem klæddu sig upp en á vorönn munu nemendur á öðru ári gleðjast saman.

Það var hátíðlegt um að litast í miðborginni þegar unga fólkið okkar dansaði og söng fyrir gesti og gangandi. Dagskrá var fyrir framan Hallgrímskirkju þar sem leikskólabörn voru á meðal áhorfanda, á Ingólfstorgi og í Miðbæjarskólaporti Kvennaskólans. Þá var einnig sungið og dansað fyrir starfsfólk mennta- og barnamálaráðuneytis og íbúa dvalar- og hjúkrunarheimilisins Grund við Hringbraut.

Svo skemmtilega vildi til að harmonikkuleikarinn okkar, Reynir Jónasson, varð níræður þremur dögum síðar og af því tilefni söng hópurinn afmælissönginn fyrir hann á Ingólfstorgi við mikla kátínu viðstaddra. Margrét Helga Hjartardóttir og Lilja Dögg Gunnarsdóttir höfðu veg og vanda að allri skipulagningu og æfingaferli.

Peysufatadagurinn – sagan í stuttu máli
Það mun hafa verið venja á dögum frú Þóru Melsteð að stúlkurnar gengju á íslenskum búningi í skólann. Með tímanum breyttist það eins og annað og þegar kom fram um 1920 gengu aðeins sumar stúlknanna í slíkum búningi í skólanum. Vorið 1921 ákváðu svo nemendur skólans að koma á peysufötum til skólans til hátíðabrigða og gera sér dagamun á eftir. Þetta var fyrsti peysufatadagurinn og hefur hann jafnan verið endurtekinn einu sinni á vetri síðan með vaxandi viðhöfn. (Heimild: Kvennaskólabókin 1974, AE).