FJÖL2FF05 - Fjölmiðlun og fjölmiðlaheimurinn

fjölmiðlun og fjölmiðlaheimurinn

Einingafjöldi: 5
Þrep: 2
Forkröfur: Grunnáfangi í félagsvísindum
Í áfanganum er fjallað um félagsleg og stjórnmálaleg áhrif fjölmiðla og hvernig þau hafa breyst í gegnum tíðina. Kannað er forræði yfir fjölmiðlum, staða þeirra sem „fjórða valdsins“ og hvaða ytri og innri þættir hafa áhrif á fréttamat þeirra og umfjöllunarefni. Reifaðar eru kenningar og rannsóknir um áhrifamátt fjölmiðla og þátt þeirra í félagsmótun einstaklinga. Fjallað er um hvern fjölmiðlaflokk fyrir sig, blöð og tímarit, ljósvakamiðla og netmiðla. Sérstaklega er tekinn fyrir fréttaflutningur í nútímasamfélagi og hvernig fjölmiðlar og fréttastofur meðhöndla upplýsingar. Einnig er fjallað um lög og reglugerðir um fjölmiðla.

Þekkingarviðmið

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

 • fjölmiðlum samfélagsins og þeim öflum sem móta þá
 • sérstöðu hvers fjölmiðlaflokks fyrir sig og hvað þeir eiga sameiginlegt
 • kenningum um áhrif fjölmiðla á viðhorf og hegðun einstaklinga s.s. umfjöllun um fjölmiðla sem „fjórða valdið“
 • margvíslegum könnunum á notkun og efni fjölmiðla
 • hvernig fréttir berast til fjölmiðla og hvernig starfsfólk á fréttastofum vinnur úr upplýsingum sem valdar eru til birtingar
 • aðalatriðum í sögu fjölmiðlunar á Íslandi
 • mikilvægum lögum og reglum um starfsemi fjölmiðla s.s. siðareglna fjölmiðlafólks og siðfræði fréttamanna
 • störfum fjölmiðlafólks til dæmis með heimsóknum á ólíka fjölmiðla

Leikniviðmið

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

 • túlka margvíslegar kannanir á notkun og efni fjölmiðla
 • geta greint á milli hlutlægs og hlutdrægs fréttaflutnings
 • skoða efni úr fjölmiðlum á gagnrýninn hátt
 • setja fram efni með tilliti til ólíkra markhópa og fjölmiðla

Hæfniviðmið

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

 • leggja sjálfur gagnrýnið mat á það efni sem birtist í fjölmiðlum
 • meta siðferðisleg álitamál út frá lögum og reglum fjölmiðla
 • afla sér heimilda eftir fjölbreytilegum leiðum
Nánari upplýsingar á námskrá.is