UPPE2ÍÞ05 - Íþróttauppeldisfræði

Einingafjöldi: 5
Þrep: 2
Forkröfur: Engar
Í áfanganum er fjallað almennt um íþróttaiðkun barna og unglinga og þá aðila sem sjá um og skipuleggja íþróttaiðkun þeirra. Einnig er farið í mikilvægi uppbyggingar íþróttastarfs og íþróttafélags, sérstaklega hvað varðar topp og breidd og hlutverk þjálfara/leiðbeinenda. Nemendur fá innsýn í uppeldis-, sálfræði- og kennslufræðilega þætti sem tengjast íþróttum. Fjallað er um aga og forvarnir, t.d. hvað varðar áfengis- og tóbaksneyslu og einelti, til að koma í veg fyrir brottfall barna og unglinga úr íþróttum. Nemendur kynna sér rannsóknir á kynjamun í tengslum við íþróttaiðkun og eiga að geta rætt fordómalaust um þær sem og keppnis- og áhugamannaíþróttir, hóp- og einstaklingsíþróttir. Lögð er áhersla á mikilvægi foreldrastarfs en jafnframt fjallað um kosti þess og galla. Meginmarkmið áfangans er að nemendur átti sig á hlutverki íþrótta í lífi barna og unglinga innan samfélagsins.

Þekkingarviðmið

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

  • uppeldislegu gildi íþróttastarfs fyrir börn og unglinga
  • hlutverki þjálfara
  • skipulagningu íþróttakennslustundar
  • þáttum sem geta komið í veg fyrir brottfall úr íþróttum
  • kynjamun i íþróttastarfi
  • þáttum sem geta stutt við jákvætt foreldrasamstarf

Leikniviðmið

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • skipuleggja kennslustund í íþróttum með börnum
  • lesa og skilja umfjöllun um uppeldis-, sálfræði- og kennslufræðilega þætti í tengslum við íþróttastarf barna og unglinga
  • skilja mikilvægi þjálfarans í íþróttastarfi barna og unglinga
  • greina einkenni samskipta- og agavandamála
  • tjá sig i kennslustund í íþróttum með börnum sem og í ræðu og riti

Hæfniviðmið

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • gera sér grein fyrir einstaklingsmun í tengslum við íþróttaiðkun barna og unglinga og samspili þess við kröfur og stefnu þjálfara og íþróttafélags
  • sýna skilning á mikilvægi þjálfarans í augum barnsins - geta sett sig í spor annarra
  • afla sér frekari upplýsinga og finna leiðir til að koma samskipta- og agavandamálum í farsælan farveg
  • sýna frumkvæði og sjálfstraust í vinnu með börnum
  • tjá sig í samskiptum við börn í íþróttum
  • tjá sig í ræðu og riti
Nánari upplýsingar á námskrá.is