FRAN2PA05 - París

Einingafjöldi: 5
Þrep: 2
Forkröfur: FRAN1F305
Í áfanganum er viðfangsefnið Parísarborg, saga hennar, mannlíf og menning í orðsins víðustu merkingu. Nemendur afla sér þekkingar og læra um sögu borgarinnar frá upphafi til samtímans. Þeir vinna verkefni um ýmis þekkt minnismerki og kennileiti borgarinnar og kynna niðurstöður sínar fyrir öðrum í hópnum, ýmist á frönsku eða íslensku. Nemendur kynna sér almenningssamgöngur í borginni, daglegt líf íbúanna og mismunandi stjórnsýsluhverfi (arrondissements). Þeir lesa smásögur þar sem sögusviðið er París, horfa á leikið efni sem gerist í borginni og heimildaefni um hana og hlusta á tónlist sem tengist henni. Eftir nokkurra vikna vinnu er farið til Parísar þar sem nemendur fara í skoðunarferðir og afla sér efnis til kynningar. Eftir heimkomuna vinna nemendur með þetta efni og semja fyrirlestur um niðurstöður sínar. Áfanganum lýkur með ritaðri frásögn af ferðinni og munnlegu prófi. Nemendur bera sjálfir allan kostnað af Parísarferðinni.

Þekkingarviðmið

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

  • sögu Parísarborgar, uppbyggingu hennar og skipulagi
  • menningu og mannlífi Parísarborgar
  • daglegu lífi íbúa Parísar, samgöngum og atvinnulífi
  • viðeigandi orðaforða sem nauðsynlegur er til að bjarga sér við mismunandi aðstæður í franskri stórborg

Leikniviðmið

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • skilja talað mál kennara og annarra nemenda í hópnum
  • skilja rauntexta og geta nýtt sér þær upplýsingar úr þeim sem skipta máli
  • skilja talað mál við mismunandi aðstæður daglegs lífs
  • beita kurteisisvenjum og málvenjum sem eiga við í mismunandi samskiptum
  • segja frá sjálfum sér og atburðum bæði í nútíð og þátíð
  • rita frásögn í þátíð þar sem hann segir frá sjálfum sér og athöfnum sínum

Hæfniviðmið

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • skilja talað mál í kvikmyndum og heimildamyndum sem og í lagatextum
  • afla sér upplýsinga á vettvangi, t.d. með viðtölum
  • lesa og túlka upplýsingar sem hann þarf á að halda til að bjarga sér í franskri stórborg
  • eiga samskipti við fólk sem hefur frönsku að móðurmáli, bæði til að ræða um daginn og veginn og til að afla upplýsinga og fá þjónustu
  • geta sagt frá sjálfum sér og tilgangi ferðarinnar sem hann er í
  • geta útskýrt í rituðu máli ýmislegt sem varðar reynslu hans af dvöl í frönskumælandi stórborg
Nánari upplýsingar á námskrá.is