ÞÝSK2ÞE05 - Þýska 5

Einingafjöldi: 5
Þrep: 2
Forkröfur: ÞÝS2ÞD05
Farið er dýpra í kennsluefni en í fyrri áföngum. Það samanstendur af skáldsögum, smásögum, ljóðum, tímaritsgreinum, hlustunarefni, kvikmyndum og öðru myndefni, ásamt skapandi, persónulegum verkefnum. Unnið er áfram að aukinni færni nemenda í lesskilningi og beitingu tungumálsins í munnlegri framsetningu, hlustun og ritun. Málfræði og setningafræði bætist við eftir því sem viðfangsefni áfangans krefjast og þörf nemenda fyrir að tjá sig á flóknari hátt vex. Nemendur vinna styttri og lengri sjálfstæð kjörverkefni m.a. um efni sem tengjast hinum þýska menningarheimi og bera þau saman við eigin menningu og lífshætti. Sum verkefnanna eru kynnt fyrir samnemendum. Nemendur þjálfast í að afla sér heimilda og nýta í framsetningu viðfangsefna og miðast verkefnin að miklu leyti við áhugasvið nemenda.

Þekkingarviðmið

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

  • nauðsynlegum orðaforða og málnotkun, munnlegri og skriflegri, til að mæta hæfniviðmiðum áfangans
  • flóknari þáttum málkerfisins
  • helstu reglum og hefðum um framsetningu á rituðu máli, s.s. formlegri og óformlegri framsetningu eða mismunandi textagerðum
  • menningu og samfélagi í þýskumælandi löndum og geta tengt við eigin reynslu, samfélag og menningu

Leikniviðmið

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • skilja þýsku sem töluð er á eðlilegum hraða og með mismunandi hreim og ná megininntaki í lengri frásögn, kvikmyndum, sjónvarps- og hljóðefni
  • nota þýsku í samskiptum í kennslustundum og um efni áfangans
  • tjá sig rétt, skýrt og óhikað um afmörkuð málefni sem hann hefur kynnt sér og nota viðeigandi orðaforða og málsnið
  • lesa texta af margvíslegum toga, nota mismunandi lestrar- og úrvinnsluaðferðir og að vinna sjálfstætt úr efni styttri og lengri texta
  • túlka munnlega og skriflega bókmenntaefni sem lesið hefur verið, nota fjölbreyttan orðaforða og lýsa eigin upplifun og skoðunum á efninu
  • flytja stutt erindi um undirbúið efni og svara um það spurningum og athugasemdum samnemenda og/eða kennara
  • afla sér hagnýtra upplýsinga með hjálp upplýsingatækni, orðabóka eða annars sem að gagni má koma og nýta efnið við sjálfstæða verkefnavinnu sem og munnlega eða skriflega framsetningu efnis

Hæfniviðmið

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • skilja daglegt mál, s.s. í fjölmiðlum eða í samræðum án þess að efnið hafi verið undirbúið sérstaklega
  • skilja megininntak talaðs máls um flóknara efni sem er kunnuglegt eða sem hefur verið undirbúið
  • tileinka sér texta, sem hlustað er á, er lesinn eða er í myndefni, átta sig á samhengi, viðhorfum og meginefni, geta tjáð sig um efnið og brugðist við t.d. skoðunum eða viðhorfum
  • lesa á milli línanna og hafa nokkurn skilning á dýpri merkingu, tvíræðni, háði og myndmáli, s.s. í bókmenntatextum eða kvikmyndum
  • tjá sig á þýsku við ýmsar aðstæður í almennum samskiptum, taka þátt í samræðum á þýsku og skiptast á skoðunum um málefni sem hann þekkir
  • geta notað þýsku á persónulegan og skapandi hátt með því t.d. að semja og eftir atvikum flytja texta frá eigin brjósti um málefni að eigin vali
  • nota fjölbreyttari orðaforða meðal annars um viðhorf og tilfinningar og flóknari setningagerð en áður
  • bera saman atriði sem varða tungumál, lífshætti og menningu þýskumælandi landa við aðstæður í heimalandi og almennt að nýta þýskunám og kunnáttu til þess að útvíkka eigin reynsluheim.
Nánari upplýsingar á námskrá.is