Hvernig get ég brugðist við áhyggjum í covid-ástandinu?

Hvernig get ég brugðist við áhyggjum í covid-ástandinu?
Sveinn Gunnar Hálfdánarson, sálfræðingur Kvennaskólans í Reykjavík

Það er svo margt í covid-ástandinu sem við búum við í dag sem er eðlilegt að valdi okkur áhyggjum. Margar af þeim áhyggjum eru meinlausar en aðrar geta jafnvel verið hjálplegar (eins og að hafa áhyggjur af því hvort hurðarhúnarnir sem þú snertir í dag hafi verið með smit!). Hinsvegar ef þessar áhyggjur eru farnar að valda kvíða eða svefnvandamálum gæti verið gott að finna leiðir til að bæta líðan og takmarka þann tíma sem fer í áhyggjur. 

Reyndu að hafa jafnvægi í daglegu lífi þínu
Reyndu að gera eitthvað gagnlegt, eitthvað skemmtilegt og eitthvað félagslegt á hverjum degi. Við höfum þörf fyrir að dreifa huganum, blanda geði við aðra og að skila einhverju af okkur. Áður en fjarkennsla fór af stað var skólinn líklega að sjá þér fyrir tveimur eða jafnvel öllum þremur af þessum atriðum en núna þarf oft finna aðrar leiðir til að sinna þessum þörfum. Það er gott að hafa tékklista í símanum sínum til að minna á þetta t.d.

  • Eitthvað gagnlegt (lærði heima)
  • Eitthvað skemmtilegt (horfði á þætti)
  • Eitthvað félagslegt (facetime með vinum)

Æfðu þig í að fresta áhyggjum.
Það leysir engan vanda að hafa stöðugt áhyggjur og margsannað að áhyggjur hjálpa sjaldnast. Það getur bæði verið tímafrekt og valdið vanlíðan að eyða of miklum tíma í áhyggjur. Sem betur fer er einnig alveg skaðlaust að fresta óþarfa áhyggjum. Með því að æfa sig í að fresta áhyggjum af mögulegum vandamálum getur þú fengið nýja sýn á vandann og aðra upplifun af áhyggjum þínum. Til þess að gera þetta þarf bara að taka daglega frá tíma (t.d. 30 mínútur seinnipart dags) til þess að hugsa um áhyggjurnar og jafnframt að sleppa og fresta áhyggjum hinar 23½ klukkustundir sólarhringsins. Hægt er að nota flæðiritið hér fyrir neðan til að meta hvaða áhyggjum þú getur frestað.

Pældu í hvort áhyggjur þínar séu vegna raunverulegra vandamála eða mögulegra vandamála.
Gefðu þér smá tíma til að hugsa um hvers eðlis áhyggjur þínar eru. Notaðu flæðiritið hér fyrir neðan til að skilgreina áhyggjur þínar og íhuga hvað er best að gera við þær.

Núvitund.
Að læra núvitund og stunda slíkar æfingar getur hjálpað fólki að sleppa áhyggjum og að draga athyglina að líðandi stund. Full athygli að önduninni eða umhverfishljóðum getur verið hjálplegt “akkeri” til þess að beina athyglinni að núinu og að sleppa áhyggjum. Á youtube fullt af kennsluefni um núvitund.

Ef ofangreind ráð duga ekki til að draga úr óhóflegum áhyggjum, þá gæti verið komi tími til að leita aðstoðar fagaðila.

Kveðja.
Sveinn Gunnar Hálfdánarson, sálfræðingur Kvennaskólans í Reykjavík

Nánari upplýsingar og frekara ítarefni:

Hvernig má fást við áhyggjur af kórónaveirunni? – frá sálfræðingum á Kvíðameðferðarstöðinni

Áhrif óvissu á andlega líðan og hjálpleg viðbrögð – frá sálfræðingi MH

Að takast á við áhyggjur og kvíða í heimsfaraldri – íslensk þýðing á efni psychologytools