Undirbúningur fyrir rafræn lokapróf

Undirbúningur fyrir rafræn lokapróf - nokkur góð ráð

1. Finndu til og flokkaðu allt námsefni
Byrjaðu á að skoða námsáætlun eða gátlista frá kennara og finna til það námsefni sem er til prófs. Á kennsluáætlun eru líka markmið og hæfniviðmið sem segja þér hvað það er sem þú átt að vera búin að læra í þessum áfanga. Mundu að þó sum próf séu gagnapróf er samt mikilvægt að læra eins og ekki sé um gagnapróf að ræða því þú hefur lítinn tíma til að fletta öllu upp.

 • Finndu námsbækur sem eru til prófs, allar glærur sem kennarinn hefur sett inn og öll verkefni sem þú hefur gert upp úr efninu. Ef þú ert í vafa hvaða efni er til prófs, hafðu þá strax samband við kennarann.
 • Flokkaðu og raðaðu gögnunum eftir efni – því betra skipulag sem er á gögnunum þínum, því betri yfirsýn hefur þú yfir lærdóminn.
 • Skoðaðu vel hvaða upplýsingar kennarinn hefur gefið um prófið. T.d. Hvað er prófið langt? Hvað gildir það mikið? Hvernig verður það (krossar, ritgerðir, eyðufyllingar, skilgreiningar o.s.frv.)? Þetta getur verið gott að vita því ólíkar námsaðferðir geta hentað fyrir ólík próf.
 • Athugaðu vel hvaða (ef einhver) gögn má hafa á prófinu og hafðu þau mjög vel skipulögð. Gott getur t.d. verið að merkja með „post-it“ miðum hvar ákveðin atriði er að finna í bókinni/glósunum. Þannig spararðu tímann sem tekur að fletta upp á atriðum í prófinu

2. Skipuleggðu tímann fram að prófi
Nú veistu hvaða efni þú þarft að komast yfir fyrir prófið. Þá getur þú áætlað tímann sem þú þarft til að fara yfir efnið miðað við þann tíma sem þú hefur fram að prófi. Næsta skref er því að búa til raunhæft tímaplan. Skipulagsblöð fyrir slíkt tímaplan er m.a. að finna á heimasíðu Kvennó undir Þjónusta- náms- og starfsráðgjöf en einnig undir aðstoð á Innu.

 • Hvenær ætlar þú að vakna?
 • Hvenær ætlar þú að byrja að læra og hversu lengi í einu?
 • Reyndu að áætla hvað þú þarft langa tíma fyrir hvert efni og skiptu því niður á tímann þinn.
 • Mundu að gera ráð fyrir tíma í mat, hreyfingu og hvíld.
 • Einnig getur verið gott að verðlauna sig í lok dags eða þegar þú ert búin að klára ákveðið efni.


3. Finndu góða námsaðstöðu
Það er misjafnt hvers konar námsaðstaða hentar hverjum og einum og því mikilvægt að finna stað þar sem þú átt auðvelt með að einbeita þér. Viltu vera í algjöru næði eða viltu hafa smá umgang? Viltu hafa algjöra þögn eða viltu t.d. hafa rólega tónlist í bakgrunninum? Eða er eitthvað annað sem eykur einbeitinguna þína? Sumum finnst líka gott að skipta reglulega um staðsetningu og vera t.d. til skiptis inn í herbergi og frammi í stofu.

 • Finndu stað þar sem lítið er um áreiti og þér finnst gott að einbeita þér.
 • Minnkaðu áreiti frá síma, sjónvarpi eða öðru.
 • Passa að fara vel með líkamann, sitja í góðri stellingu og standa reglulega upp
 • Ekki gleyma að borða og drekka

4. Notaðu fjölbreyttar námsaðferðir
Námsaðferðir við prófalestur eru margar og misjafnt hvað hentar hverju fagi. Fyrir flesta er versta námsaðferðin þó að lesa bara bókina eða glærurnar. Flest munum við nefnilega ekki nema mjög lítinn hluta af því sem við lesum. Því er mikilvægt að nota fjölbreyttar námsaðferðir. Þú getur t.d.

 • Lesið efnið og skrifa stuttar glósur á spássíu bókarinnar
 • Búið til glósur úr efninu á blað eða minnismiða – í tölvu eða í höndunum
 • Útbúið hugkort í tölvu eða á blaði
 • Búið til spurningar upp úr efninu (hægt að vinna saman og deila spurningum)
 • Svarað gömlum prófum eða spurningum úr efninu
 • Lært með vin, rætt um efnið og spurt út úr – fengið fjölskyldumeðlim til að spyrja þig út úr
 • Notaðu fjölbreyttar aðferðir.

5. Hugsaðu jákvætt
Jákvætt hugarfar minnkar kvíða og stress og eykur vellíðan. Dæmi um jákvæðar hugsanir:

 • Ég get þetta vel
 • Ég hef staðið mig vel hingað til, ég mun líka standa mig vel núna
 • Ég er búin að taka fullt af svona prófum á önninni, þetta er ekkert nýtt
 • Ef ég undirbý mig vel þá gengur mér vel
 • Ég ætla að gera mitt besta
 • Prófið er bara einn mælikvarði á þekkingu mína