ERLE2LU04 - Erlend samskipti - Lundur

Einingafjöldi: 4
Þrep: 2
Forkröfur: Engar
Í áfanganum kynnast nemendur erlendum nemendum á svipuðum aldri, menningu þeirra og námi jafnframt því sem þeir kynna sína eigin menningu og nám. Fyrirkomulag áfangans er þannig að nemendur heimsækja eitt af þeim löndum sem eru með í verkefninu og dvelja þar í viku. Þar búa þeir hjá nemendum og taka þátt í margvíslegum verkefnum. Síðar sækja sömu nemendur íslensku nemendurna heim og dvelja hjá þeim í viku. Í áfanganum er lögð áhersla á unglingamenningu þeirra landa sem taka þátt en einnig er fjallað um kvikmyndir, tónlist, bókmenntir og fleira. Í nemendaheimsóknum vinna allir nemendur í vinnustofum að kynningum þar sem unnið er með ákveðið þema hverju sinni. Þar er leitast við að nota nútímalegar aðferðir, tækni og sköpun við vinnslu verkefna og kynninga. Auk sameiginlegra verkefna í vinnustofum vinna nemendur einstaklingsverkefni og kynningar. Nemendur þurfa bæði að takast á við hlutverk gestgjafa og gests í áfanganum. Þeir kynna eigið land og menningu og fræðast um menningu og siði annarra. Erlendu þátttakendurnir eru frá Svíþjóð, Færeyjum og Litháen. Höfuðmarkmið áfangans er að auka víðsýni nemenda og gera þá hæfari til þess að lifa í fjölmenningarlegu umhverfi nútímans en auk þess eru fjölmörg önnur námsmarkmið.

Þekkingarviðmið

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

  • helstu atriðum í íslenskri dægurmenningu, einkum því sem snýr að honum sjálfum og unglingum og geta kynnt þau fyrir öðrum
  • helstu þáttum íslenskrar menningar á sviði bókmennta og lista og geta kynnt þá fyrir öðrum
  • helstu þáttum í menningu og unglingamenningu þess lands sem hann heimsækir
  • hvernig hans eigin skóli og nám eru byggð upp og geta kynnt það fyrir öðrum
  • helstu/völdum stöðum í umhverfi hans til dæmis í Reykjavík og nágrenni og geta kynnt þá fyrir öðrum

Leikniviðmið

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • taka á móti erlendum gesti og hýsa hann á heimili sínu í nokkra daga
  • skipuleggja heimsóknir og viðburði sem gestir taka þátt í
  • semja kynningar á erlendu tungumáli
  • vera í samskiptum við aðra á öðru tungumáli en móðurmálinu
  • vinna í vinnustofum með erlendum nemendum sem hafa annan bakgrunn
  • búa inni á heimili í öðru landi og aðlaga sig að þeim aðstæðum sem þar eru

Hæfniviðmið

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • vinna með öðrum og taka þátt í fjölmenningarlegu samstarfi
  • styrkja eigin samskiptahæfni
  • auka hæfni sína í því erlenda tungumáli sem notað er sem samskiptamál
  • takast á við óvæntar aðstæður
  • bera ábyrgð á erlendum gesti/um
  • taka ábyrgð á sjálfum sér á erlendri grundu.
Nánari upplýsingar á námskrá.is