SAGA3SR05 - Saga og menning Rómarborgar

Einingafjöldi: 5
Þrep: 3
Forkröfur: SAGA2RÓ05
Í áfanganum er fjallað um sögu og menningu Rómar frá upphafi til samtímans. Sérstaklega verður fjallað um sögu og menningu Rómar sem miðstöðvar kirkjuvalds miðalda og ítölsku endurreisnarinnar í Evrópu auk umfjöllunar um sögufræga staði og menningu borgarinnar á tímum Rómaveldis. Nemendur munu fræðast ítarlega um helstu byggingar og stofnanir borgarinnar á ólíkum tímum, byggingastíla, listasögu og þróun samfélags og menningar í borginni og læra að tengja sögu hennar og mikilvægi við ýmsa markverða atburði heimssögunnar. Í lok annarinnar verður farin námsferð til Rómar sem nemendur undirbúa og skipuleggja m.a. með fjáröflun fyrir ferðina. Í Róm verða markverðir staðir og söfn borgarinnar og Vatíkansins heimsótt undir leiðsögn kennara þar sem nemendur munu fá að upplifa arfleifð sögu og menningar Rómarborgar. Nemendur áfangans greiða allan kostnað ferðarinnar.

Þekkingarviðmið

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

  • sögu Rómarborgar og Páfaríkisins á hinum ólíku tímabilum
  • helstu menningarminjum og sögufrægum byggingum Rómar og Vatíkansins
  • uppbyggingu borgarinnar, byggðaþróun og skipulagi
  • helstu persónum og áhrifavöldum í sögu Rómarborgar og Kirkjuríkisins
  • samfélagi, efnahag og menningu Rómar á ólíkum sögulegum tímabilum

Leikniviðmið

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • lesa sagnfræðilegan texta á íslensku og ensku um efni áfangans
  • afla sér ábyggilegra upplýsinga um sögufræga staði, söfn og byggingar borgarinnar, greina þær og setja í sögulegt samhengi
  • skipuleggja vettvangsferð á sögufræga staði og söfn í Róm til að kynnast þeim af eigin raun
  • kynna staði og/eða fyrirbæri sem tengjast sögu og menningu Rómar fyrir öðrum með munnlegum og/eða skriflegum hætti
  • nýta sér internetið og bókasöfn til þess að afla sér dýpri fræðilegrar þekkingar á ýmsum efnisþáttum áfangans
  • tjá sig í ræðu og riti um efni áfangans, rökræða efnið og geta miðlað því á fjölbreyttan máta

Hæfniviðmið

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • geta tekið þátt í skoðanaskiptum og rökræðum um sögu og menningu Rómar
  • koma þekkingu sinni og skilningi á sögu og menningu Rómar á framfæri með fjölbreyttum hætti, m.a. í formi ýmissa sértækra verkefna og fyrirlestra
  • leggja mat á eigin frammistöðu og annarra í verkefnavinnu
  • greina sögulegt, félagslegt og menningarlegt samhengi borgarinnar á ólíkum tímabilum
  • meta menningarlegt mikilvægi einstakra bygginga og/eða sögufrægra staða í borginni.
Nánari upplýsingar á námskrá.is