ERLE2KA05 - Erlend samskipti - Kalmar

Einingafjöldi: 5
Þrep: 2
Forkröfur: Áfangar í raungreinum og stærðfræði á 1. ári náttúruvísindabrautar s.s. EFNA2AM05, STÆR2GN05, JARÐ1AJ05, LÍFF1GR05 eða sambærilegir áfangar
Áfanginn er samstarfsverkefni Kvennaskólans í Reykjavík og Calmare Internationella Skolan í Kalmar í Svíþjóð. Um er að ræða nemendaskipti sem styrkt eru af Nordplus Junior. Í áfanganum bera nemendur saman aðstæður þessara tveggja landa hvað varðar orku- og umhverfismál, heilsu og tækni. Unnin eru hópverkefni þar sem þemu og umfjöllunarefni eru tengd áðurgreindum þáttum. Auk þess kynnast nemendur hluta af menningu og náttúru landanna tveggja og skólamenningu sem einkennir hvort land fyrir sig. Nemendur byrja á að undirbúa verkefnavinnu og ferð til Kalmar í Svíþjóð. Þar er dvalið á heimilum sænskra nemenda í eina viku á haustönn. Farið er í heimsóknir í fyrirtæki og stofnanir í orku- og iðnaðargeiranum og í vettvangsferðir þar sem skoðuð eru náttúrufyrirbæri og merkir staðir. Auk þessa vinna nemendur verkefni í blönduðum hópum í skólunum. Sænskir nemendur koma til Íslands á vorönn og undirbúa nemendur komuna, taka þátt í skoðunarferðum og námsheimsóknum í fyrirtæki auk þess að vinna verkefni tengd orku, umhverfi, tækni og heilsu. Sænsku nemendurnir dvelja á heimilum íslensku nemendanna í viku. Verkefnaskil eru í lok heimsóknar sænsku nemendanna þar sem nemendur gera munnlega grein fyrir niðurstöðum hópavinnu.

Þekkingarviðmið

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

  • orkuvinnslu með mismunandi hætti s.s. gufuafli, vatnsafli og kjarnorku
  • umhverfisáhrifum orkuvinnslu með kjarnorku, vatnsafli og gufuafli
  • frágangi kjarnorkuúrgangs
  • vinnslu kalksteins til sementsgerðar og ferli sementsframleiðslu
  • nýtingu úrgangs við sementsframleiðslu
  • fuglarannsóknum á Öland
  • ýmsum framleiðslu- og iðnaðarfyrirtækjum hér heima og í nágrenni Kalmar
  • hluta af sameiginlegri sögu Norðurlanda er varðar Kalmarsambandið
  • muninum á íslenska og sænsku skólakerfinu

Leikniviðmið

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • kynna sér orku- og umhverfismál í öðru landi og vinna úr þeim upplýsingum
  • kynna sér orku- og umhverfismál á Íslandi og vinna úr þeim upplýsingum
  • taka þátt í vinnustaðaheimsóknum og vettvangsferðum
  • vinna með fólki af öðru þjóðerni með ensku sem samskiptamál
  • eiga í hversdagslegum samskiptum við fólk af öðru þjóðerni
  • afla sér á margvíslegan hátt upplýsinga um annað land, þjóð þess og aðstæður
  • kynna sér menningu annars norræns lands
  • kynna eigið land og þjóð fyrir fólki af öðru þjóðerni

Hæfniviðmið

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • leggja mat á umhverfisáhrif orku- og iðnaðarframleiðslu eða aðra þætti sem eru til skoðunar hverju sinni
  • geta borið saman ólík lönd og þjóðir, menningu þeirra og ólíkar aðstæður vegna náttúrufars
  • koma þekkingu sinni og skilningi á framfæri á margvíslegan hátt
  • nýta kunnáttu sína í ensku í umræðum, vinnu með öðrum og kynningum
  • ferðast til annarra landa og njóta þeirrar upplifunar, bæði sem einstaklingur og hluti af hóp.
Nánari upplýsingar á námskrá.is