FÉLA2KR05 - Kenningar og rannsóknaraðferðir

Einingafjöldi: 5
Þrep: 2
Forkröfur: FÉLV1SJ06 Sjónarhorn félagsvísinda
Í áfanganum er fjallað um frumkvöðla félagsfræðinnar og kynntar helstu kenningar og rannsóknaraðferðir greinarinnar. Tengsl einstaklinga og samfélags eru skoðuð og greind í ljósi ólíkra kenninga. Í áfanganum er farið yfir vítt svið félagsfræðinnar og nemendur fá þjálfun í að beita félagsfræðilegu innsæi við túlkun á samfélaginu, bæði almennt og á tiltekin viðfangsefni. Bornar verða saman eigindlegar og megindlegar rannsóknir og tengsl þeirra við kenningar. Nemendur fá þjálfun í að beita rannsóknaraðferðum og fylgja vísindalegu rannsóknarferli þar sem áhersla verður lögð á aðferðarfræðileg og siðferðisleg vandamál tengd rannsóknum í félagsvísindum. Meginmarkmið áfangans er að auka áhuga, þekkingu og skilning nemenda á kenningum og rannsóknaraðferðum til þess að þeir verði færir um að meta, taka afstöðu til og fjalla á gagnrýninn hátt um rannsóknir félagsvísindamanna og beita þeim í nokkrum mæli.

Þekkingarviðmið

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

  • kenningarsjónarhornum félagsfræðinnar; samskipta-, samvirkni- og átakakenningum
  • megindlegum og eigindlegum rannsóknaraðferðum
  • helstu hugtökum félagsfræðinnar
  • aðalatriðum femínískra kenninga og póstmódernisma

Leikniviðmið

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • tengja saman rannsóknarniðurstöður og kenningar
  • beita kenningum á mismunandi viðfangsefni
  • beita hugtökum á mismunandi viðfangsefni
  • beita rannsóknaraðferðum á mismunandi viðfangsefni
  • taka fræðilega afstöðu til samfélagslegra álitamála

Hæfniviðmið

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • sjá félagsleg hugðarefni út frá mismunandi kenningarlegum sjónarhornum
  • geta lagt mat á rannsóknir í félagsvísindum
  • leggja mat á hvaða rannsóknaraðferðir henta best við mismunandi aðstæður og á mismunandi rannsóknarefni
  • geta metið eigið vinnuframlag og annarra
  • geta sett fram þekkingu sína í ræðu og riti
Nánari upplýsingar á námskrá.is