SAGA2RÓ05 - Rómarveldi

Einingafjöldi: 5
Þrep: 2
Forkröfur: SAGA1MU05
Í áfanganum verður fjallað um 1500 ára sögu Rómverja sem skópu heimsveldið sem lagði grunninn að vestrænni menningu. Gerð verður grein fyrir uppgangi Rómverja sem stórveldis og þróun þeirra til eins mesta heimsveldis sem sögur fara af og áhrif Rómverja á mótun og þróun vestrænnar menningar og ríkja verða greind og skýrð. Meðal annarra umfjöllunaratriða verða samfélag, menning, listir, trúarbrögð, stjórnkerfi, byggingarlist, tækni og hernaður Rómverja á ólíkum tímabilum og ítarlega fjallað um einstök tímabil í sögu Rómverja frá látlausu upphafi við Tíberfljót á 6. öld. f. Kr. til endaloka austrómverska ríkisins árið 1453, þar sem áhrifamiklum persónum, atburðum og einkennum hvers tímabils í sögu Rómverja verða gerð greinargóð skil.

Þekkingarviðmið

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

  • helstu atburðum í sögu Rómaveldis
  • stéttaskiptingu og samfélagslegum einkennum ólíkra tímabila í sögu Rómaveldis
  • efnahagskerfi og efnahagslegum einkennum ólíkra tímabila
  • atvinnuháttum og tækniþróun Rómverja
  • menningarlegum og trúarlegum þáttum í sögu Rómverja
  • landvinningum og hernaðartækni Rómverja
  • stjórnkerfi, stjórnarháttum og réttarkerfi Rómaveldis
  • helstu persónum í sögu Rómaveldis og áhrifum þeirra

Leikniviðmið

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • lesa sagnfræðilegan texta á íslensku og ensku um efni áfangans
  • afla sér upplýsinga um efni áfangans, greina þær og setja í sögulegt samhengi
  • meta gildi og áreiðanleika heimilda og nýta sér fjölbreyttar tegundir þeirra
  • nýta sér internetið og bókasöfn til þess að afla sér dýpri fræðilegrar þekkingar á ýmsum efnisþáttum áfangans
  • beita sagnfræðilegum aðferðum við úrvinnslu og skráningu heimilda
  • tjá sig í ræðu og riti um efni áfangans, rökræða efnið og geta miðlað því á fjölbreyttan máta
  • beita gagnrýnni hugsun og greina orsakasamhengi sögulegra atburða

Hæfniviðmið

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • koma söguþekkingu sinni og skilningi á efninu á framfæri með fjölbreytilegum hætti
  • geta tekið þátt í skoðanaskiptum og rökræðum með jafningjum um efni áfangans
  • gera sér grein fyrir orsökum og ástæðum fyrir útþenslu og landvinningum Rómveldis
  • greina og meta ástæðurnar fyrir falli og endalokum Rómaveldis
  • geta ályktað um orsakasamband atburða í víðu sögulegu samhengi
  • skilgreina einkenni heimsveldis Rómverja út frá stjórnarfarslegum, efnahagslegum, samfélagslegum, hernaðarlegum og menningarlegum þáttum og geta borið saman við einkenni heimsvelda á síðari tímum
  • meta menningarlegt framlag Rómverja til síðari tíma samfélaga.
Nánari upplýsingar á námskrá.is