LANF2FE05 - Ferðalandafræði

Einingafjöldi: 5
Þrep: 2
Forkröfur: Grunnáfangi í félagsvísindum
Í áfanganum verður fjallað um grundvallarþætti í ferðalandafræði. Litið er til ferðamennsku sem lausnar í atvinnumálum og lið í að auka þjóðartekjur en nauðsynlegt er að átta sig á að ferðamennska er fjölbreytt og flókið fyrirbæri sem hefur ýmsar afleiðingar sem sumar hverjar eru taldar óæskilegar. Unnið verður að því að skapa þekkingu á lögmálum ferðamennsku og ferðaþjónustu, með sérstakri áherslu á Ísland. Farið verður í grunnlögmál ferðamennsku og hvernig hún hefur áhrif á náttúru og umhverfi. Fjallað verður um ýmis grundvallarlíkön og kenningar og athyglinni verður sérstaklega beint að ferðamannastaðnum, náttúru hans og samfélagi. Fræðileg umfjöllun greinarinnar verður tengd við reynslu nemenda af því að ferðast og heimsækja ferðamannastaði og þannig leitast við að skapa áhuga og skilning á mikilvægi ferðamennsku í daglegu lífi, í efnahagslegu tilliti greinarinnar á landsvísu og fyrir einstakar byggðir. Sérstaða og grunnhugtök eru kynnt: ferðamaður, ferðamennska og útivist, ferðamannastaðurinn, samgöngur, gisting, aðsókn, heimamenn/þjónustuaðilar, burðargeta/burðarþol/„carrying capacity“, líkön í ferðamennsku t.d. Lea/Urry/Poon/Butlers/Björklund & Philbricks, aðdráttarafl staða og ímynd, t.d. í ferðabæklingum, græn/visthæf ferðamennska, ferðaþjónusta á Íslandi, rannsóknir, stefnumótun og áætlanir fyrir ferðaþjónustuna. Farið verður í heimsókn á ferðaskrifstofur og önnur fyrirtæki og stofnanir sem fást við málaflokkinn og reynt verður að kynnast ferðaþjónustufyrirtæki utan Reykjavíkur. Einnig verður farið í heimsókn í Háskóla Íslands. Grundvallarnálgun viðfangsefnisins hefur að markmiði að hjálpa nemendum að öðlast yfirsýn og þekkingu á helstu þáttum ferðamennsku, mikilvægi náttúruferðamennsku fyrir Ísland og þeim áhrifum og afleiðingum sem ferðamennskan hefur á náttúru og samfélag á ferðamannastöðum.

Þekkingarviðmið

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

 • hugtökum, kenningum og aðferðum sem beitt er í ferðalandafræði
 • mikilvægi ferðamannastaðarins, skipulagningu hans og verndun svo hann geti þjónað sem aðdráttarafl og hvati til ferðalaga
 • hvata til ferðalaga og ferðahegðun
 • aðstæðum og afstöðu heimamanna og hvernig hún þróast með tímanum
 • helstu tegundum ferðamennsku, ekki síst visthæfri ferðamennsku
 • ferðaþjónustu á Íslandi
 • helstu áætlunum og stefnumörkun í greininni

Leikniviðmið

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

 • afla sér upplýsinga um ferðamennsku og útivist á Íslandi og tengja hugtök og kenningar við þann raunveruleika sem ferðamannastaðurinn Ísland býður upp á
 • nýta líkön til að meta stöðu mála hérlendis og spá fyrir um líklega þróun
 • tengja saman eigin reynslu og fræðilega umfjöllun um ferðamennsku
 • setja saman einfalda en raunhæfa ferðaáætlun fyrir mismunandi hópa
 • vinna úr upplýsingum einn eða í hópi, kynna niðurstöður og taka þátt í rökræðum

Hæfniviðmið

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

 • vinna á sjálfstæðan, agaðan og virkan hátt að gagnaöflun og úrvinnslu
 • geta lagt sjálfstætt mat á upplýsingar og geta fengið hnitmiðaðar niðurstöður í framhaldinu
 • geta á markvissan hátt kynnt viðfangsefni fyrir öðrum með fjölbreyttum aðferðum og tekið þátt í rökræðu um þau
 • átta sig á helstu forsendum íslenskrar ferðaþjónustu og hvað gerir hana sérstaka
 • geta lagt einfalt mat á einstök verkefni í ferðaþjónustu
 • geta dregið ályktanir með markvissum hætti um möguleika til ferðaþjónustu eftir ólíkum svæðum á Íslandi
 • geta fjallað um kosti og galla ferðamennsku og ferðaþjónustu fyrir stór og lítil samfélög, náttúrufar þeirra og menningu
Nánari upplýsingar á námskrá.is