ENSK2SM05 - Sögur, músík og myndir 1950-70

músík og myndir 1950-70, sögur

Einingafjöldi: 5
Þrep: 2
Forkröfur: Engar
Í þessum valáfanga í ensku er leitast við að kanna menningarstrauma í Bandaríkjunum og Bretlandi á árunum 1950-1970, þ.e. á eftirstríðsárunum og hippatímabilinu, með hliðsjón af nýrri heimsmynd þess tíma og byltingarkenndum samfélagsbreytingum. Nemendur lesa margvíslega texta um tímabilið, ræða viðfangsefnin, sjá heimildamyndir og kvikmyndir frá þessum tíma, hlusta á tónlist og skoða áhrif lagatexta, lesa sögur og ljóð tengd tímabilinu, skrifa kvikmyndarýni og flytja munnlegar kynningar tengdar efninu, bæði sjálfstætt og í hópum. Áhersla er lögð á gagnrýna hugsun og tjáningu, jafnt í ræðu sem í riti.

Þekkingarviðmið

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

 • helstu menningarstraumum í Bandaríkjunum og á Bretlandi á árunum 1950-1970, þ.e. eftirstríðsárunum og hippatímanum
 • nýrri heimsmynd þessara tíma og byltingarkenndum samfélagsbreytingum
 • gagnrýninni hugsun og baráttu fyrir friði og tjáningarfrelsi
 • þróun tónlistar á þessu tímabili og hlutverki hennar í samfélagsrýni
 • kvikmyndagerð á sjötta og sjöunda áratugnum með hliðsjón af samfélagshefðum og ritskoðun
 • speglun samtímans á þessum áratugum í ljóðagerð og skáldsagnaritun

Leikniviðmið

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

 • lesa fjölbreyttar gerðir texta, bæði til fróðleiks og ánægju
 • greina ádeilu og gagnrýni í list s.s. ljóðum, bókmenntum, kvikmyndum og tónlistartextum
 • gera sér mynd af samfélagsgerð og –breytingum fyrri tíma með rýni í ofangreind listform og myndrænar heimildir
 • tjá sig munnlega skýrt og hnökralaust um málefni sem hann hefur kynnt sér bæði formlega og óformlega
 • tjá sig skriflega bæði formlega og óformlega

Hæfniviðmið

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

 • öðlast gleggri mynd af afar áhugaverðu tímabili í menningarsögu Bandaríkjanna og Bretlands
 • gera sér grein fyrir hvernig samfélagsbreytingar verða til, orsökum þeirra, framvindu og afleiðingum
 • tengja saman listsköpun og samtímahræringar og þátt hvors um sig í hinu
 • taka þátt í skoðanaskiptum, færa rök fyrir máli sínu og svara mótbárum og gagnrökum á viðeigandi hátt
 • tjá sig skýrt, lipurlega og blaðalaust fyrir áheyrendum um sérvalið efni sem hann hefur kynnt sér
 • skrifa formlegan og óformlegan texta og beita rithefðum sem við eiga í textasmíð.
Nánari upplýsingar á námskrá.is