ÍSLE3FH05 - Félagsleg málvísindi/hljóðfræði og hljóðkerfisfræði/þýðingar

félagsleg málvísindi, hljóðfræði og hljóðkerfisfræði, þýðingar

Einingafjöldi: 5
Þrep: 3
Forkröfur: ÍSLE2MN05
Í áfanganum er farið í ýmis grundvallaratriði í hljóðfræði og hljóðkerfisfræði. Farið er í myndun málhljóða og þau hugtök sem notuð eru í tengslum við hana auk þess sem nemendur læra hljóðritun sem byggir á IPA (alþjóðlegu hljóðritunarkerfi). Lögð er áhersla á að tengja hljóðfræðina við einstaklingsbundinn framburð, máltöku barna og ólíkar framburðarreglur í mismunandi tungumálum. Fjallað er um helstu staðbundnu framburðarmállýskurnar á Íslandi og rannsóknir á þeim. Í áfanganum er sjónum einnig beint að félagslegum málvísindum þar sem meðal annars er fjallað um máltöku barna, máltökuferlið og hvernig rannsóknum á því er háttað. Tungumálið er skoðað út frá ýmsum félagslegum hliðum, t.d. hvað varðar mál mismunandi hópa þegar litið er til aldurs, kyns og stéttar auk þess sem rýnt er í orðræðu kynjanna. Fjallað er um ýmis tal- og málmein, málstöðvar í heila og táknmál. Þá er einnig skoðað hvernig við notum óyrt skilaboð og hvernig við förum að því að nota þau í netheimum. Í áfanganum er einnig fjallað um það hvað þarf að hafa í huga við þýðingar og spreyta nemendur sig á því að þýða úr ensku yfir á íslensku.

Þekkingarviðmið

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

 • fræðilegum hugtökum sem tengjast efninu
 • þeim hæfileika sem maðurinn hefur til að nema mál
 • máltöku barna og tvítyngi
 • ýmsu er varðar mismunandi málnotkun fólks
 • talmeinum og ýmsu er varðar tjáskipti manna
 • grundvallarhugtökum um hljóðfræði, myndunarstað og myndunarhætti málhljóða í íslensku
 • hljóðritun orða og setninga
 • helstu staðbundnu framburðarmállýskum á Íslandi
 • þýðingum og þeim vandamálum sem þýðendur geta staðið frammi fyrir

Leikniviðmið

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

 • nýta sér fræðileg hugtök í umfjöllun um tungumál
 • átta sig á mismunandi málsniði
 • átta sig á þeim mun sem getur verið á máli mismunandi hópa
 • skoða hvað getur talist rétt og rangt mál
 • vinna á fræðilegan hátt úr gögnum sem tengjast efni áfangans
 • greina myndunarstað og myndunarhátt málhljóða
 • hlusta eftir mismunandi framburði, áherslum og blæbrigðum í tali manna
 • greina og þekkja mismunandi framburðarmállýskur
 • hljóðrita eftir eigin framburði og annarra
 • þýða texta úr erlendu tungumáli yfir á íslensku

Hæfniviðmið

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

 • bera saman mál mismunandi hópa
 • verða víðsýnn í umræðum um mál og málsnið
 • nota ýmsar aðferðir til að skoða félagslegar hliðar málsins
 • fjalla um hljóðkerfi íslenskunnar og annarra tungumála
 • lesa úr hljóðritunartáknum og hljóðrita texta
 • bera saman framburð íslenskunnar og valinna nágrannamála
 • fjalla á fordómalausan hátt um ólíkan framburð fólks og mismunandi málvenjur
 • kljást við vandamál sem upp geta komið við þýðingar úr einu tungumáli yfir á annað
 • nota fræðileg vinnubrögð við úrvinnslu efnis
Nánari upplýsingar á námskrá.is