Kvennaskólinn í Reykjavík

Próf og námsmat

Námsmat


Námsmat getur farið fram með mismunandi hætti eftir ákvörðun kennara. Það getur verið fólgið í einu prófi í lok námsáfanga og/eða samfelldu mati á vinnu nemandans meðan á námi stendur, ennfremur í lausn sérstakra verkefna. Nánari tilhögun námsmats er í höndum hverrar deildar.
Í upphafi hvers skólaárs skal nemendum kynnt kennsluáætlun og námsmarkmið svo og tilhögun námsmats hverrar námsgreinar. Kennarar meta úrlausnir nemenda. Að loknu annarprófi skulu nemendur eiga þess kost að skoða prófúrlausnir sínar innan þriggja daga frá afhendingu einkunna. Ef fram kemur skekkja í mati eða einkunnagjöf skal slíkt leiðrétt.
Komi upp ágreiningur milli nemanda og kennara um mat úrlausnar skal skólameistari kveðja til prófdómara til þess að fara yfir úrlausnina. Úrskurður prófdómara skal gilda.
Skólameistari getur óskað eftir því að ráðuneytið skipi prófdómara við lokapróf eða til aðstoðar við úrlausn alvarlegra ágreiningsefna sem upp kunna að koma á milli nemenda og kennara.
Nemendum er sérstaklega bent á að í sumum áföngum verða þeir að standast lokapróf áður en verkefnaeinkunn er reiknuð inn. Þetta kemur þá fram á námsáætlun.


Einkunnagjöf

Einkunnir eru gefnar í heilum tölum frá 1 - 10 og skal hafa eftirfarandi til hliðsjónar um merkingu þeirra:
        10 u.þ.b. 95 - 100 % markmiða náð
        9 u.þ.b. 85 - 94 % markmiða náð
        8 u.þ.b. 75 - 84 % markmiða náð
        7 u.þ.b. 65 - 74 % markmiða náð
        6 u.þ.b. 55 - 64 % markmiða náð
        5 u.þ.b. 45 - 54 % markmiða náð
        4 u.þ.b. 35 - 44 % markmiða náð
        3 u.þ.b. 25 - 34 % markmiða náð
        2 u.þ.b. 15 - 24 % markmiða náð
        1 u.þ.b. 0 - 14 % markmiða náð


Reglur um námsframvindu

Nemendur fá vitnisburð í öllum námsgreinum sínum tvisvar á hverju skólaári, í lok haustannar og vorannar. Til þess að standast próf í einstökum námsgreinum sem kenndar eru allan veturinn þarf nemandi að fullnægja eftirtöldum skilyrðum:
- Vorannareinkunn a.m.k. 4.
- Lokaeinkunn, þ.e. meðaltal haustannar- og vorannareinkunnar, að lágmarki 4,0.
Sumar námsgreinar eru einungis kenndar annað hvort á haustönn eða á vorönn og þarf þá lokaeinkunnin í greininni að vera að lágmarki 4 til að standast próf.
Til þess að geta flust án frekari skilyrða á milli námsára þarf nemandi að fullnægja lágmarksskilyrðum um lokaeinkunn, þ.e. 4,0 í hverri grein, og aðaleinkunn, sem er vegið meðaltal lokaeinkunna, þarf að vera 5,0 eða hærri. Nánari einkunnareglur koma fram á námsáætlun hverrar greinar.


Endurtökupróf

Nemandi sem hefur aðaleinkunn 5,0 eða hærri í lok skólaárs en hefur hlotið lokaeinkunn undir lágmarki í tveimur greinum, þ.e. undir 4, hefur heimild til þess að þreyta endurtökupróf í námsefni vetrarins við lok skólaárs. Nemandi telst hafa staðist endurtökupróf ef lokaeinkunn hans í námsgreininni er að lágmarki 4 og hefur þá öðlast rétt til að flytjast á milli námsára. Ef nemandi er með þrjár lokaeinkunnir eða fleiri undir 4 telst hann fallinn á skólaárinu.
Nú fellur nemandi á öðru endurtökuprófinu, þá er heimilt að flytja hann milli bekkja einu sinni á námsferlinum ef einkunn hans er ekki lægri en 2 og námsgreinin ekki aðalgrein á námsbraut hans skv. skilgreiningu skólans. Aðalgreinar brauta eru kjörsviðsgreinar viðkomandi brautar ef þær eru undanfarar (þ.e. námi verður haldið áfram í greininni).
Meginreglan í endurtökuprófum er sú að prófið gildir sem lokaeinkunn í áfanganum. Á þessu eru þó undantekningar, t.d. í efna- og eðlisfræði þar sem símat gildir áfram þó nemandi fari í endurtökupróf. Á endurtökuprófi í íþróttum getur nemandi ekki fengið hærra en 4 í einkunn. Í tungumálum er meginreglan sú að nemandi þarf að endurtaka skriflegt próf, munnlegt próf og í sumum tilvikum hlustunarpróf. Nemendur sem fara í endurtökupróf þurfa að kynna sér þessar reglur hjá viðkomandi kennara.
Ef nemandi endurtekur bekk þarf hann ekki að sækja kennslustundir í þeim greinum sem hann hefur náð með einkunninni 7 eða hærra.


Reglur um námsframvindu í 4. bekk

Nemandi telst hafa lokið stúdentsprófi þegar hann hefur gengist undir lokapróf í öllum námsgreinum sínum og fullnægt eftirfarandi lágmarkskröfum um einkunnir:
Aðaleinkunn að lágmarki 5,0 og prófseinkunn í hverri grein 4. Nemandi telst hafa lokið stúdentsprófi þótt tvær prófseinkunnir hans séu undir ofangreindu lágmarki en þó ekki lægri en 2. Tekið skal fram að ekki má vera um að ræða sömu grein og áður hefur verið farið með sem fall á milli ára.
Á stúdentsprófsskírteini koma fram lokaeinkunnir hverrar námsgreinar og skólasóknin hvers árs í prósentum.
Aðaleinkunn á stúdentsprófi er vegið meðaltal allra lokaeinkunna.

Prófareglur

Nemandi á að mæta stundvíslega í rétta stofu samkvæmt auglýsingu fyrir hvern prófdag.
Nemandi á að rita nafn sitt á sérstakan miða, sem verður á borði hans í upphafi prófs.
Veikindi á að tilkynna strax að morgni prófdags og staðfesta síðan með vottorði dagsettu samdægurs. Vottorði skal skila á skrifstofu þegar nemandi kemur næst í skólann.
Sjúkrapróf má nemandi aðeins taka hafi hann skilað inn vottorði eða hafi skriflega heimild til þess.
Kennarar í yfirsetu ráða sætaskipan nemenda.
Ef nemandi er staðinn að því að nota óleyfileg gögn, veita eða þiggja hjálp frá öðrum nemanda, telst hann fallinn í viðkomandi prófi.
Nemendum er óheimilt að hafa farsíma (gemsa) á sér í prófi og telst hann til óleyfilegra gagna.
Nemandi á að sýna sérstaka tillitssemi þegar próf standa yfir og fara hljóðlega af prófstað. Óheimilt er að yfirgefa prófstað fyrstu 30 mínúturnar af próftíma.
Óheimilt er að dvelja á göngum framan við prófstofur á próftíma.

Mat á námi í eða frá öðrum skólum

Nemandi, sem stundað hefur nám í öðrum framhaldsskólum, getur fengið metið það nám sem hann hefur stundað með fullnægjandi árangri enda falli það að bekkjakerfi Kvennaskólans.
Viðurkennt framhaldsskólanám sem nemandi stundar samhliða námi við Kvennaskólann eða í námshléi frá honum má meta til eininga (t.d. í vali).
Leiki vafi á kunnáttu nemanda í námsgrein getur hann sýnt kunnáttu sína á stöðuprófi.

Mat á starfs- og listnámi

Starfsnám og viðurkennt listnám á framhaldsskólastigi má meta til kjörsviðs á
bóknámsbrautum. Slíkt nám getur komið í stað allt að 12 eininga á kjörsviði. Nemandinn
þarf að hafa lokið skilgreindum hluta viðkomandi náms, s.s. grunnnámi eða lengra
starfsnámi. Sama gildir um listnám, þar þarf grunni að vera lokið (þ.e. III stigi) eða
lengra námi. Starfsnám og listnám má einnig meta sem frjálst val (12 einingar).Síðast breytt: 20.02.2008 12:26


AukavalLeit

Leitarvél
Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli