Kvennaskólinn í Reykjavík

Frétt

 

Samfélagsábyrgð á Tjarnardögum

09.03.2010
Það er nóg um að vera hjá Kvennó þessa vikuna en í dag hefjast Tjarnardagar. Á Tjarnardögum fellur hið hefðbundna skólastarf niður og boðið er uppá ýmis konar námskeið og fræðslu.

Enn öflugri Tjarnardagar
Í ár var ákveðið að gera Tjarnardaga enn öflugri og tengja þá samfélagsverkefnum af ýmsum toga. Á síðustu vikum, eftir að hafa dregið félagasamtök úr hatti, hafa bekkir skólans (alls 24) unnið með félaga- og góðgerðasamtökum á Íslandi.

Í dag fáum við að sjá afrakstur þeirrar vinnu með fjölbreyttum uppákomum um allan bæ – og jafnvel víðar!

Bærinn á iði
Meðal þess sem nemendur hafa skipulagt má nefna gjörning á Ingólfstorgi til kynningar á starfi SÁÁ, kaffiboð í Blindrafélaginu, faðmlög og kakó í mjóddinni og hinar ýmsu kynningar og kökubasarar í Kringlunni.

Á hlaupum með bæjarstjórum
4NS hefur skipulagt hjólastólaferð frá Keflavík til Hafnarfjarðar til að vekja athygli á slæmu hjólastólaaðgengi. Bekkurinn hefur safnað áheitum og munu bæjarstjórar Reykjanesbæjar, Voga og Hafnarfjarðar hlaupa stuttar vegalengdir með bekknum.

Þá mun annar bekkur taka á móti fatnaði og leikföngum fyrir Rauða krossinn í Uppsölum (Þingholtsstræti 37) frá kl. 11.

Enn fleiri skemmtileg og gefandi verkefni eru á dagskrá í dag og um að gera að skella sér í bæinn eða í verslunarmiðstöðvar og styðja við gott málefni.

Jákvæð athygli
Tilgangur verkefnisins er margþættur. Það mun gefa nemendum tækifæri á að gefa af sér til þjóðfélagsins sem og vekja jákvæða athygli á ungmennum og því góða starfi sem þau geta unnið. Auk þess er tilgangurinn að kynna mikilvægi samfélagslegrar ábyrgðar og sjálfboðastarfa almennt.

Til baka

Síðast breytt: 27.08.2013 09:19


AukavalLeit

Leitarvél
Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli